Sunday, April 05, 2009

Einn bullukollurinn í viðbót

Mér líður oggupons eins og ég sé tólf ára aftur að uppgötva Fólk.is á nýjan leik með alla linkana á heitu poppstjörnunum. En fólk.is er úrelt og einnig eru það poppstjörnurnar. Með hverju árinu þarf maður að koma með raunsærri rök í bloggunum, þarf að haga sér eins og manneskja en ekki unglingur. Fara eftir uppskriftinni. Flottu leiðbeiningunum. MOGGBLOGG eru víst nýju leiðbeiningar lífsins. Orð Moggabloggarans má ekki véfengja, regla númer eitt.

En á erfiðum tímum sem og nú þegar kjarnorkuslagyrði birtast á útgönguveggjum Nóatúns og ÍNN er orðin heitasta sjónvarpsstöð landsins, hvað er annað í stöðunni en að tjá tilfinningar sínar fyrir alþjóð Internetsins með nokkrum saklausum bloggum ?

Það sem er 8,1 prósent atvinnuleysi og sumar í aðsigi. Ég heyri krakkana pískra um enga sumarvinnu á skólagöngunum og allt virðist stefna til helvítis. Blóð, sviti og tár um sætin á almenningsbekkjunum, bærinn að grána enginn aur og aðeins saur hvað er að ríkisstjórninni? Það sem ég skil ekki er að fólk virðist gleyma þeirri einföldu staðreynd að það er til. Ég er ekki að boða dulspeki þar sem líkaminn er musteri og hvert og eitt okkar ættum að detta sem dropar í hafið. Lífið er brandari, af hverju ekki að lifa eftir því? Og nú kemur ræðan..

Þegar fólk gleymir tilvist sinni vil ég meina að það sé í tilvistargleymsku en alls alls alls ekki K-orðið. Tilvistargleymska lýsir sér þannig að maður einblínir svo mikið á allt sem maður hefur ekki að maður gleymir því sem maður ætti að hafa. Já, þetta er mótsögn en málið er að maður hættir að forgangsraða eftir lífinu og forgangsröðum frekar eftir þörfum samfélagssins. En hvað eru þarfir samfélagssins?
Fólk með peníng?
Fólk með skilning?
Fólk með skoðanir?

Af hverju getum við ekki bara kvatt tilvistargleymskuna og fagnað sumrinu sem boða sólarinnar og freknanna og Nauthólmsvíkur? Munum eftir litlu frændsystkinunum með hálfan ísinn á kinn og hinn helminginn á stuttermabolnum. Páskaliljur og Sólblóm og rólóvellir og góðhjörtu að gefa Appelsín í gleri á Austurvelli. Línuskautar og marblettir. Hvað annað getur fólk beðið um ? Gleymum stoltinu og gleymum lánavöxtunum í stutta stund. Kerlingar sem halda að þær spari með því að fara á útsölur og gráhærðir karlar á Hressó sem virðast halda að þeir fiski upp veiði fyrir litla gaurinn með því að kaupa 1500 króna Mojito handa BRJÓSTUM en greinilega UNDIR-LÖGALDRI. Þetta er náttúran. Hinn eilífi pendúll sem sveiflast í gegnum lífið og snýst og leyfir okkur að halda jafnvægi því að við verðum einhverntímann að vera svöng til að finna fyrir saðningu. Ég er orðin það þreytt að ég veð úr einum pollinum yfir annan án þess að finna fyrir bleytu. Takk fyrir mig,

Fríða Ísberg.

3 comments: