Monday, May 25, 2009

Eitthvað röfl.

Síðustu daga hef ég verið gagntekin af þeirri hugsun að ég sé komin með svínaflensuna. Ekki af því að ég var í Mexíkó, ekki af því að ég fór í einhvern heitan sleik við svín heldur af því að ég er lífshrædd og vildi einungis einblína á það að ég gæti mögulega dáið. Ég hef alltaf verið hálfgerður epíkúringur fyrir utan þá litlu staðreynd, - dauðinn kemur mér afskaplega mikið við.
Enn eitt hitamál er komið til að skelfa þjóðina og allt sem ég ímynda mér er svona bíómyndklippa þar sem dagblað hringsnýst og skellur á skjánum með eitt orð; SVÍNSLAND?
Ætli við séum gagntekin af því að finna eitthvað að, bara af því að við höfum ekki neitt annað að gera? Ekkert annað umræðuefni yfir kökuboðunum?

Burtséð frá dauða og hræðslu við hann, þarf þá virkilega svínaflensu til að kalla okkur svín?

Tuesday, May 12, 2009

Heimsendir. Árið er 20.203 og jörðin hrynur saman á morgun. Götur heimsins standa tómar og vonleysið og sorgin mála lönd og höf dumbrauð. Þrjátíu og sjö milljarðar af andlitum gráta þurrum tárum ofaní brunn dauðans. Er einhver ennþá að berjast, eða eru allir heima með fjölskyldunum að neyta síðustu kvöldmáltíðina?
Fyrir utan geimfarastöðvar standa þó nokkrar millur af mönnum ennþá hangandi á síðasta vonarstrái um undankomuleið. I DONT WANNA DIE - grenja þau öll í angist. En aðeins nokkur pláss eru í seinustu geimförin sem um þessar mundir ferja mannkynið á ný heimkyni. En hverjir fá þessi nokkur pláss? Konur og börn? Valdamenn? Hvítt fólk? Svart fólk? Feitt fólk? Framtíðar Bill Clintonar og Donald Trumpar? Var happdrætti um lífið, eða var einhver þraut sem þú varðst að leysa? Hvaða 0,01 prósenta af heiminum fékk ánægjuna af áframhaldandi lífi og nýrri byrjun? Nýjum landafundum, fleirum Kristóferum Kólumbusum? Er Geimfarið hans Nóa til staðar með dýrapörum?
Erum við þess virði?